Sun Oct 22 2017

Höfum hátt

Gabriela Líf

Það er átak í gangi núna á facebook sem fer undir nafninu #höfumhátt og #metoo og eru stelpur/konur að setja fram allskonar sögur af atvikum sem þær hafa lent í. Með þessu erum við að reyna að opna umræðuna og hafa hátt og sýna hversu ótrúlega margar hafa í raun lent í kynferðislegri áreitni og/eða ofbeldi. Ég á mér slíka sögu en það erfiða við það er að þetta er ekki eina atvikið þar sem ég varð fyrir kynferðislegri áreitni, það hefur svo oft komið upp og þarf eitthvað að gera í þessu! Það er ekki ásættanlegt að stelpur og konur séu að lenda ítrekað í svona aðstæðum Þegar ég var 15 ára gömul fór ég með bestu vinkonu minni á þeim tíma í partý. Það voru nokkrir strákar, allir eldri en við, og ég hafði smá efasemdir um þetta partý en ákvað samt að skella mér. Ég og vinkona mín fengum strax sitthvorn bjórinn sem við drukkum báðar. Eftir bjórinn fór okkur báðum að líða illa, vinkona mín fékk bara í magann og vildi ekki meir og mér leið eins og ég hefði drukkið heilan kassa af bjór. Ég varð ótrúlega ringluð, þreytt, leið illa og hafði illa stjórn á mér. Ég áttaði mig engan veginn á því að þetta væri ekki eðlilegt þegar ég var í þessum aðstæðum. Ég sagði við vinkonu mína að ég væri svo þreytt og ég ætlaði að leggjast niður. Einn strákurinn sagði mér að ég mætti leggjast inn í hans herbergi, sem ég gerði. Ég hafði á þeim tímapunkti enga stjórn á aðstæðunum og litla stjórn á líkamanum mínum.

Ég lagðist niður og vinkona mín lokaði hurðinni. Ég hlýt að hafa dottað strax því næsta sem ég man þá var strákurinn kominn inn í herbergið og lá við hliðina á mér. Ég átti kærasta á þessum tíma og sagði það við hann. Eina sem ég náði að gera var að segja "nei", "farðu" og reyna að slá frá mér, en þar sem ég var mjög máttlaus þá hafði það lítil áhrif. Hann byrjaði að kyssa mig, strjúka mér, fara undir bolinn minn, byrjaði að hneppa frá buxunum mínum og var kominn með hendina ofan í buxurnar þegar að vinkona mín rífur upp hurðina og spyr hvað ég sé að gera! Sem betur fer kom vinkona mín nokkuð fljótt inn áður en eitthvað meira gerðist en fyrir mér þá leið þessi tími ofur hægt! Hún hélt að ég væri að taka þátt í þessu en áttaði sig svo sem betur fer á því fljótt að svo var ekki. Henni leið sjálfri ótrúlega illa, búin að æla og vildi fara heim. Kom og ýtti honum af mér, reif mig fram og lét vin sinn skutla okkur heim. Ég var að reyna að segja hvað hafði skeð en hún var of upptekin af því að henni væri svo flögurt að hún átti sjálf erfitt með að hlusta. Ég áttaði mig varla á þessu sjálf. Á leiðinni heim þá snýr vinur hennar sér að okkur og segir við okkur mjög harkalega að við skulum sko ekki segja neinum frá þessu. Við komum heim til hennar, gistum þar og vöknum svo daginn eftir báðar fárveikar. Ég áttaði mig þá loksins á því hvað hafði í rauninni gerst, mér hefði verið byrlað ólyfjan og átta ég mig á því hversu ótrúlega alvarlegt þetta var! Ég reyni svo að tala um það við vinkonu mína en hún vil ekki trúa því að þetta hefði gerst í partý hjá vini hennar og hunsar mig því. Þetta atvik situr ennþá mjög fast í mér og þakka ég guði fyrir að ekki fór verr! Það eru svo hræðinlega sorglegt að hugsa til þess hversu margar stelpur og konur hafa lent í sömu aðstæðum og ég og enn fleiri lent í verri aðstæðum. Þetta átak er mjög þarft og finnst mér hræðinlegt að sjá hversu margar á minni facebook síðu eru að deila sinni sögu og taka þátt, þetta eru svo ótrúlega margar og ábyggilega enn fleiri sem þora ekki að taka þátt. #höfumhátt #metoo Vona að þessi lesning hreyfi við einhverjum, Gabriela Líf <3