Wed Oct 24 2018

Ráð fyrir hlaupabólu

Gabriela Líf

Jæja það kom að því að Hlynur Logi fékk hlaupabóluna, fengum að vita að það hafi barn verið með hana á leikskólanum fyrir 2 vikum svo við vorum búin að vera dugleg að fylgjast vel með honum. Hann byrjaði á að fá tvær bólur en svo daginn eftir þegar við vöknuðum voru þær búnar að margfaldast. Við fórum með hann til læknis til þess að staðfesta þetta og fengum ráð frá henni. <em>“Hlaupabóla er mjög smitandi sjúkdómur, sem er algengur hjá börnum. Sjúkdómurinn lýsir sér með bólum eða blettum á húð sem verða að nokkurs konar blöðrum og síðar sárum. Mikill kláði getur fylgt bólunum. Einstaklingur getur smitað aðra allt að þremur dögum áður en hann fær sjálfur útbrot og er smitandi þar til allar bólur hafa sprungið og þornað upp. Sá tími, sem líður frá því að einstaklingur smitast þar til hann fer að fá einkenni, í þessu tilviki bólur, vessafylltar blöðrur og sár er 10-21 dagur. Meðferðin felst einkum í því, að draga úr einkennum en ef kláðinn verður svo mikill að hann truflar svefn barnsins, er hægt að gefa því kláðastillandi lyf, andhistamín, sem þó getur haft sljóvgandi áhrif” </em> (Tekið af <a href='http://www.doktor.is' target='_blank'>Doktor.is</a>)

Ég fór að skoða á netinu og kíkja í allskonar mömmu hópa á netinu og fann allskonar ráð sem mælt var með. Tók saman þau ráð sem ég fann og ákvað að deila þeim með ykkur. Ráðin sem ég fann voru þessi: <ul><li>Klippa neglurnar, erfiðara að klóra sér</li><li>Gæta vel hreinlætis, bæði hjá barninu og foreldrunum. Vera dugleg að þvo hendurnar, sérstaklega áður og eftir að borið er á barnið</li><li>Kaldur bakstur getur hjálpað til við að deyfa kláðann</li><li>Kalamín er algengasta ráðið hjá læknum og á áburðurinn að draga úr kláðanum. Mér fannst þó og sá hjá öðrum mömmum að það er ekkert auðvelt að bera á hverja einustu bólu, bíða eftir að það þorni og vona að barnið sitji kjurt</li><li>Aloe vera til að kæla</li><li>Það sem var mest mælt með af mömmunum var þó kláðastillandi froða, sem heitir PoxClin. Hún er þó frekar dýr og fæst í apótekum en er algerlega þess virði!</li><li>Ofklæða börnin ekki og forðast að þeim verði of heitt</li><li>Sáragaldur á bólur sem er búið að klóra mikið til að koma í veg fyrir ör</li><li>Lóritín fyrir svefn (bara gert samkvæmt læknisráði)</li></ul> Algengustu ráðin sem ég sá á netinu voru þó hafra- karteflumjöl og/eða matarsóda bað Ég prófaði að setja haframjöl (átti ekki karteflumjöl) í nælonsokk, kreista sokkinn ofan í baðinu og leyfa honum að vera í á meðan hann leikur sér. Setja svo nokkrar skeiðar af matarsóda með. Hlynur Logi var þó ekki alveg nógu hrifinn af þessu og sagði bara "OJJ mamma" og neitaði að fara ofan í fyrr en ég tók sokkinn uppúr.

Það má gefa verkjalyf ef barninu líður ekki vel og sérstaklega ef þau fá hita EN það má alls ekki gefa Nurofen eða verkjalyf með ibuprofen eða aspirin.

Þegar við fórum með Hlyn Loga í 18 mánaða bólusetninguna var ekkert rætt við okkur um að bólusetja fyrir hlaupabólu, ég sá það hinsvegar á netinu að margir foreldrar voru að gera það og spurði því hjúkrunarfræðing en hún talaði eins og þetta væri eitthvað sem væri ekkert nauðsynlegt að gera. Mig hinsvegar langaði að bólusetja hann en lét ekkert verða úr því fyrst hún talaði um þetta svona, en ég sé sko eftir því í dag! Eftir að hafa lesið mig almennilega til um þetta þá er mælt með að bólusetja börn eftir 12 mánaða, þau fá 2 sprautur og ekki mega líða meira en 4 vikur á milli þeirra til þess að bóluefnið hafi áhrif. Bólusetning gegn hlaupabólu er ekki orðið hluti af venjulegri bólusetningu, sem mér finnst að ætti að breyta, og því þurfa foreldar að greiða sjálfir fyrir hana. Ég mun hinsvegar klárlega bólusetja næsta barn, það er alveg á hreinu!!

Ég vona að þetta hjálpi einhverjum og svo krossleggjum við bara fingur um að þetta gangi hratt yfir og verði ekki alltof slæmt :) Þangað til næst, Gabriela Líf <3 Ef þið viljið fylgjast meira með mér þá er mitt Instagram <a href='http://www.instagram.com/gabrielalifsigurdar' target='_blank'>HÉR</a> Snapchat: gabrielalif90